Lög Golfklúbbs Vatnsleysustrandar

Lög Golfklúbbs Vatnsleysustrandar

1. grein

Félagið heitir Golfklúbbur Vatnsleysustrandar og ber skammstöfunina GVS. Heimili og varnarþing er í Sveitarfélaginu Vogum. Félagið er aðili að Íþróttabandalagi Suðurnesja (Í.S.) og Golfsambandi Íslands (G.S.Í.).

2. grein

Tilgangur og markmið félagsins er að efla áhuga á golfíþróttinni og skapa félagsmönnum sem besta aðstöðu til að iðka hana. Félagið rekur golfvöll og golfskála og stendur fyrir golfæfingum, golfmótum og annarri starfsemi sem tengist golfíþróttinni.

3. grein

Við golfleik skal fara eftir gildandi golfreglum eins og þær eru á hverjum tíma (GSÍ, R&A, G.C. of St. Andrews). Stjórnin setur sérreglur eftir því sem þurfa þykir, enda brjóti þær ekki í bága við almennar golfreglur. Skylt er að fara eftir þeim reglum sem stjórnin setur og getur slæm umgengni valdið áminningu, tímabundnum missi réttinda til að leika golf á golfvelli félagsins og síðar brottvikningu úr félaginu. Reglurnar skulu vera félagsmönnum aðgengilegar á heimasíðu GVS.

4. grein

Um inngöngu í félagið skal sækja skriflega. Aðild að félaginu er öllum opin að því marki sem aðstaða og þjálfunaraðstæður leyfa.

5. grein

Aðalfundur ákveður gjaldskrá næsta starfsárs að fenginni tillögu stjórnar. Stjórnin hefur heimild til að ákveða inntökugjald nýliða í félagið og skal sú ákvörðun kynnt rækilega á félagsfundi, áður en hún kemur til framkvæmda.

6. grein

Stjórnin ákveður innheimtufyrirkomulag félagsgjalda og er henni heimilt að skipta gjalddögum í 3 hluta. Eindagi félagsgjalda skal vera 1. júní ár hvert. Þeir sem ekki hafa greitt árgjald fyrir eindaga hafa fyrirgert rétti sínum sem félagar og fá m.a. ekki að taka þátt í keppni fyrr en gjaldið hefur verið að fullu greitt eða um það samið. Úrsögn er bundin við áramót, enda berist hún til gjaldkera fyrir lok desembermánaðar.

7. grein

Stjórn félagsins skipa sjö menn: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri, formaður mótanefndar, formaður vallarnefndar og formaður forgjafarnefndar. Þeir skulu kosnir á aðalfundi. Formaður skal kosinn sérstaklega til eins árs í senn. Aðrir stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára í senn, þannig að þrír eru kosnir annað hvert ár. Formaður félagsins er aðalforsvarsmaður þess og kemur hann fram fyrir hönd félagsins og stjórnar þegar við á, auk þess sem hann stýrir stjórnarfundum og sinnir öðrum þeim verkefnum sem stjórnin kann að fela honum og lög heimila. Á aðalfundi skal einnig kjósa þrjá varamenn í stjórn til eins árs. Gangi einhver úr stjórn áður en kjörtíma hans lýkur skal 1. varamaður taka sæti hans til næsta aðalfundar og þannig koll af kolli. Boði aðalmenn í stjórn forföll á stjórnarfundum skulu varamenn kallaðir til að taka sæti þeirra. Varamönnum skal að jafnaði heimil seta á stjórnarfundum með málfrelsi og tillögurétti. Stjórnarmenn má endurkjósa gefi þeir kost á sér. Tveimur vikum fyrir aðalfund skal stjórn skipa þriggja manna kjörnefnd. Einn nefndarmanna skal vera eða hafa verið í stjórn eða varastjórn. Kjörnefnd skal leita eftir framboðum til embætta sem kjósa skal í og sjá til þess að a.m.k. einn frambjóðandi sé til hvers þeirra. Stjórnin getur jafnframt falið kjörnefnd að leita eftir framboðum eða tillögum um skipan nefnda, sbr. 9. grein.

8. grein

Stjórnin ákveður sjálf starfstilhögun sína (sjá þó 9. grein). Hún getur ráðið sér launaða aðstoð og fær bein útgjöld greidd úr félagssjóði en vinnur sjálf ólaunuð. Hún kemur fram fyrir hönd félagsins í fullu umboði hans, í öllum málum sem hann varðar. Stjórnin hefur heimild til að skuldbinda félagið að undangengnum stjórnarfundi með tilheyrandi bókun. Þó þarf samþykki félagsfundar til stórra ákvarðana sem hafa mikil fjárútlát í för með sér. Hún getur tilnefnt heiðursfélaga ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi, enda leiti hún fundarsamþykkis á því. Stjórnin skal rækta samband við félagsmenn og kynna þeim mikilsverð mál er varða starfsemi félagsins á félagsfundum eða opnum stjórnarfundum.

9. grein

Á vegum stjórnarinnar skulu að jafnaði starfa þessar nefndir: 1. Mótanefnd, 2. Vallarnefnd, 3. Forgjafarnefnd, 4. Aganefnd, 5. Fjáröflunarnefnd, Fjórar fyrsttöldu nefndirnar starfa skv. reglum G.S.Í. Fjáröflunarnefnd leitast við að afla félaginu fjár til styrktar starfseminni, til dæmis með auglýsingum sem geta verið á skorkortum, árskortum, teigamerkjum og í eða á kynningarsamkomum o.fl. Í hverri þessara nefnda skulu vera 3-5 menn. Formenn nefndanna eru tilnefndir á aðalfundi og velja þeir með sér nefndarmenn. Stjórninni er auk þess heimilt að skipa í aðrar nefndir eftir atvikum.

10. grein

Aðalfundur er æðsta úrskurðarvald í öllum málefnum félagsins. Hann telst löglegur og ályktunarhæfur um öll málefni félagsins sé löglega til hans boðað án tillits til þess hve margir mæta. Hann skal halda í fyrstu viku desember ár hvert. Aðalfund skal auglýsa með tveggja vikna fyrirvara á heimasíðu félagsins. Tillögur til lagabreytinga eða breytinga á starfstilhögun skulu hafa borist til stjórnar fyrir 10. nóvember. Atkvæðisrétt hafa þeir félagar sem náð hafa 16 ára aldri og eru skuldlausir við félagið. 2/3 hluta atkvæða þarf til að samþykkja breytingar á lögum. Aðalfundur skal kjósa fundarstjóra eftir tillögu stjórnar. Í fundarlok skal lesa upp fundargerð og bera upp til samþykktar. Séu fundargerðir þannig samþykktar og undirritaðar af fundarstjóra og fundarritara auk viðstaddra stjórnarmanna, skoðast þær rétt sönnunargögn um ákvarðanir fundarins. Á öðrum tímum ársins getur stjórnin boðað til almenns félagsfundar ef henni þykir henta eða 10 félagar óska þess skriflega með rökstuðningi. Slíkan fund skal halda innan þriggja vikna frá móttöku slíkrar beiðni. Aðra félagsfundi skal auglýsa með viku fyrirvara. Í fundarboðum skal tilgreina dagskrá

11. grein

Reikningsár félagsins er frá 1. nóvember til 31. október. Skoðaðir reikningar félagsins skulu lagðir fyrir aðalfund til samþykkis.

12. grein
Dagskrá aðalfundar skal vera:

1) Skýrsla stjórnar um störf og framkvæmdir á liðnu starfsári.

2) Kynning á skoðuðum ársreikningi.

3) Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning sem síðan skulu borin upp til samþykktar.

4) Umræður og atkvæðagreiðsla um tillögur skv. 10. grein.

5) Kosning stjórnar og varamanna í stjórn.

6) Tilnefning í aðrar nefndir, sbr. 9. grein.

7) Kosnir tveir skoðunarmenn reikninga og einn til vara.

8) Kosinn einn fulltrúi og tveir varafulltrúar í stjórn Í.S.

9) Ákvörðun um gjaldskrá fyrir næsta starfsár.

10) Önnur mál.

13. grein

Sérstakur fundur þarf að ákveða hvort félagið hættir störfum. Til að þær ákvarðanir teljist lögmætar þurfa 2/3 hlutar félaga að vera á fundi og 2/3 þeirra að samþykkja tillögu þess efnis. Sé þátttaka ekki næg má boða til nýs fundar innan þriggja vikna og er hann ályktunarhæfur um þetta mál sé hann löglega boðaður enda þótt fyrrgreindri fundarþátttöku sé ekki náð. Ef til slita félagsins kemur skulu eignir þess renna til þeirra góðgerðarmála sem ákveðin eru á slitafundi.

14. grein

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á aðalfundi 7. október 2006. Samþykktar breytingar á aðalfundi 2. desember 2019 eftir heildarendurskoðun laganna.