Hola 5 Goðhóll

GVS_brautir_loka

Þegar farið er yfir Goðhólsrásina og Heiðargarðinn er komið á stórt tún sem heitir Land, einnig kallað Suðurtún, slétt og hólalaust fyrir utan eina hólbungu, allmikla um sig sem heitir Hallshóll. Hóllinn skilur að Landið og Naustakotstúnið. Sagt var að alltaf gerði rigningu þegar búið var að slá Hallshól. Um mitt Landið lá Kirkjugatan frá Hliði til Kálfatjarnar. Rétt ofan við götuna lá grjótstétt þvert yfir Goðhólstúnið kölluð Kirkjubrú. Líklegt er að Kirkjubrúin hafi verið gerð til þess að auðvelda kirkjufólki för yfir Goðhólsrásina sem gat orðið hinn versti farartálmi í leysingum. Aftur er slegið yfir Heiðargarðinn og á Goðhólstúnið. Á klapparhól nyrst í túninu er Sundvarðan sem notuð var sem mið í Keili og gaf til kynna að rétt væri róið um Kálfatjarnarsund fyrir Markklettinn inná Leguna. Þar mátti láta litla dekkbáta liggja. Úr Legunni var svo róið uppí Kálfatjarnarvör. Flötin liggur fyrir norðan Goðhól, við eitt útihúsanna. Goðhóll stóð á mörgum hólum, sem einu nafni heita Goðhólar. Goðhóll sem fór í eyði árið 1933 var tómthús frá kirkjujörðinni en hafði grasnyt. Þar mun síðast hafa verið búið í torfbaðstofu í Vatnsleysustrandarhreppi. Á kampinum fyrir neðan flötina má svo sjá grunn af uppsátrinu, þar sem bátarnir voru teknir á land, skiparéttinni og neðar í fjörunni er Goðhólsvör.

Umsögn

Hola 5/14 Goðhóll

Par 5  459 metrar

Nokkuð löng en þægileg par 5 hola sem gefur möguleika á fugli fyrir högglanga kylfinga. Upphafshöggið þarf að ná yfir 100 metra til að komast yfir hættur sem liggja fyrir framan  teig.

Hættan er öll vinstramegin við brautina sem saman stendur af grjótgarði og háum karga en annars er einfaldast að slá út til hægri á milli 5 og 6 holu því þar er karginn ekki eins hár.

Annað höggið býður upp á að taka áhættu með að slá yfir karga og gamla húsatóft og  ef höggið heppnast er góður möguleiki á fugli. Ef hinsvegar menn leggja upp og eiga eftir um 100 metra á flöt getur innáhöggið verið snúið því flötin er mjó og löng. Það getur munað í kylfuvali  hvar holan er staðsett á flötinni.

Við flötina eru nokkrar hættur sem samanstenda af tjörn vinstra megin, hvítum hælum hægra megin við flöt og hól vinstra megin við flötina. Flötin er á tveimur stöllum og nokkur halli er á henni. Par er gott skor hér en fyrir högglanga er þarna góður fuglamöguleiki.