Hola 6 Kirkjubraut

vallarvisir_hola6

Á sjötta teig er gott útsýni yfir það athafnasvæði er tengdist sjávarútvegi á Kálfatjörn. Þar má sjá hæstan og mestan Markklett sem var landamerki milli Þórustaða og Kálfatjarnar. Við enda sjóvarnargarðsins við teig var sjávarbyrgi Kálfatjarnar. Þar norður af er Snoppa (Hausaklöpp) þar sem þorskhausar voru hertir. Í Naustakoti (í byggð 1703) voru fjárhús eftir búsetu. Sunnan við Naustakot var fjárrétt og fast við hana að sunnan grasigróið gerði, kallað Hausarétt. Þar voru þurrkaðir þorskhausar í seinni tíð uns það lagðist niður með öllu á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Næst kampinum, mun lægra en túnið umhverfis, er Síkið sem nær suður undir Sjávargötu. Í Síkið flæddi sjór í miklum flóðum um Rásina allt uppí Kálfatjarnarbrunn. Fast sunnan við Kálfatjörnina er Sjóbúðin. Þar eru rústir sjóbúðar er séra Stefán Thorarensen lét byggja, er hann var prestur og bóndi á Kálfatjörn 1857-1886. Sagt var að sjóbúð þessi rúmaði tvær skipshafnir, alls 16 menn. Þar mun býlið Hólkot (Hóll) hafa staðið en síðast er getið um búsetu þar í lok 17. aldar. Í seinni tíð mun búðin hafa verið notuð sem fjárhús. Aftur er leikið á Landinu og þegar á flöt er komið má finna lága hleðslu austan megin við hana sem eru leyfar af Hestarétt þar sem kirkjugestir geymdu hesta sína.

 

Umsögn

Hola 6/15 Kirkjubraut

Par 5  455 metrar

Stutt og þægileg par 5 hola með töluverða möguleika á fugli. Kylfingar skulu gefa sér smá tíma til að standa á teig og virða fyrir sér útsýnið sem er magnað. Þar sést Reykjaneskaginn, Snæfellsnesið og Reykjavíkursvæðið vel á góðum degi

Upphafshögg er þægilegt en fyrir högglanga eru tvær brautarglompur á lendingarsvæðinu. Engar hættur eru á leiðinni fyrir utan eina glompu en betra er að spila vinstra megin á brautina fyrir innáhöggið. Erfiður kargi er allt í kringum flötina og því ekki gott að missa innáhöggið til hliðar eða of langt

Mikill halli er á flötinni sem hallar á móti innáhöggi og er flötin nokkuð stór. Þessi hola gefur góðan mögueika á fugli en ætti að vera þægileg par braut.