Hola 7 Krosshóll

vallarvisir_hola7

Slegið er yfir Austurtún að grjótgörðum þeim er umlykja Móakotstúnið. Áður en farið er yfir garðinn, sunnarlega í Króknum er dálítil lægð eða pollur sem var kallaður Víti. Þar mun býlið Árnahús líklega hafa staðið nærri en gárungarnir svo fært nafnið af pollinum yfir á kotið eins og sögnin um biskup og séra Hallgrím Pétursson bendir til. Sagt er, að Brynjólfur biskup hafi eitt sinn vísiterað á Kálfatjörn og haft spurnir af manni er bjó þar í þurrabúð í túninu, Árnahúsi (Víti). Ekki þótti hann kirkjurækinn og réri til fiskjar á helgidögum. Biskup hafði tal af honum og fylgir það sögunni, að hann hafi veitt honum leyfi til þessara helgidagsbrota, er honum varð ljós fátækt hans og ómegð. Er séra Hallgrímur frétti þetta, orti hann:

„Biskupinn blessar hjalla
bila ei upp frá því,

krosshús og kirkjur allar
og karlinn, sem býr Víti í.“

 Sunnan við tóftirnar af Móakoti er langur og hár hóll, Klapparhóll. Þar var talið að mikið af huldufólki byggi og því var hann einnig kallaður Álfhóll. Móakot var grasbýli frá kirkjujörðinni og fór í eyði um 1950. Hverju sem það sætti var orðrómur um að enginn mætti búa þar lengur en í 9 ár. Nær sjó er svo Móakotstjörn sem var mýrartjörn. Í fjörunni neðan flatarinnar er Móakotsklöpp sem áður var landföst en þar eru fjörumörk Kálfatjarnar og Móakots.

 

Umsögn

Hola 7/16 Krosshóll

Par 4  326 metrar

Ein fallegasta par 4 hola á landinu. Mikið landslag er í brautinni og hólar sem loka  flötina af  og gerir annað höggið dálítið blint með tjörn hægra megin. Útsýnið yfir á Snæfellsnesið og Reykjavíkursvæðið er oft ægi fagurt

Upphafshöggið þarf að vera nákvæmt og vel staðsett fyrir innáhöggið. Grjótgarður sker brautina um 100 metra frá flöt og eins og áður sagði þá er flötin varin með hólum og tjörn  hægra megin við hana. Fyrir aftan flöt eru vallarmörk því er ekki gott að vera of langur í innáhögginu

Flötin hallar örlítið á móti innáhöggi og er nokkuð stór. Par er gott skor á þessari braut.